Opnunartími frá 08 - 17

24. janúar 2024

Á árinu 2023 náðu mislingar flugi í Evrópu eftir nokkurra ára hlé. Stórir alvarlegir faraldrar höfðu mikil áhrif 2018–2019 og bárust smit til Íslands nokkrum sinnum á árinu 2019.

Mislingar

Á árinu 2023 náðu mislingar flugi í Evrópu eftir nokkurra ára hlé (sjá samantekt Alþjóðaheilbrigðis-málastofnunarinnar WHO fram í nóvember 2023). Stórir alvarlegir faraldrar höfðu mikil áhrif 2018–2019 og bárust smit til Íslands nokkrum sinnum á árinu 2019. Einungis eitt þeirra leiddi til útbreiðslu innanlands en heildarfjöldi tilfella varð undir tíu, þrátt fyrir að þátttaka í bólusetningum hér hafi um árabil ekki náð 95% markmiðinu á landsvísu.

Mislingar smitast afar auðveldlega milli manna t.d. á flugvöllum og lykilatriði í að hindra dreifingu sjúkdómsins er að þátttaka í bólusetningum nái 95% markmiðinu á landsvísu. Árið 2023 var faraldsfræði mislinga sláandi lík árinu 2017, í aðdraganda stóru faraldranna 2018–2019. Engar virkar meðferðir eru til gegn mislingasjúkdómi sem getur haft alvarlega skammvinna fylgikvilla (lungnabólga, aðrar sýkingar) og varanlega (heilaskaði, blinda) eða valdið dauða hjá u.þ.b. einum af hverjum þúsund tilfellum. Nú þegar hafa 5 andlát verið tilkynnt á svæðinu sem heyrir undir Evrópudeild WHO á árinu 2023 en endanlegar tölur fyrir allt árið 2023 verða birtar síðar á árinu 2024.

Staða bólusetninga gegn mislingum á Íslandi

Á COVID-19 árunum töfðust mislingabólusetningar nokkuð hér á landi, sérstaklega seinni skammturinn sem gefinn er í 7. bekk, og hefur enn ekki náðst að vinna halann upp. Sömu sögu er að segja í mörgum Evrópulöndum, þar sem staðan fyrir COVID-19 faraldurinn var víða síðri en hér. Bólusetningastaða yngri barna er einnig síðri nú en oft áður, innan við 90% barna í fæðingarárgangi 2021 eru með skráða mislingabólusetningu í janúar 2024, en börnum er boðin bólusetning í 18 mánaða skoðun.

Mislingabólusetningar vegna ferðalaga

Í aðgerðum þar sem faraldrar hafa komið upp nú þegar er leitast við að hindra frekari útbreiðslu og tempra alvarleika veikinda með bólusetningum. Mikilvægt er að fólk sem ferðast til Evrópulanda eða millilendir á stórum flugvöllum í Evrópu hugi að bólusetningastöðu sinni og barna sinna áður en lagt er upp í ferðalag. Hér á landi er einnig mikilvægt að hafa í huga hlutverk Keflavíkurflugvallar við millilendingar við flug yfir Atlantshafið.

Bólusetning gegn mislingum er örugg og veitir langtímavörn gegn sjúkdómnum. Ef tilefni er til má nota MMR bóluefnið sem er venjulega gefið í 18 mánaða skoðun allt niður í 6 mánaða aldur, en börn sem fá það fyrir 12 mánaða aldur fá oft ekki langtímavörn með þeim skammti, og því er mælt með að það sé þá gefið aftur í 18 mánaða skoðun (og 12 ára). Ung börn fá nokkuð oft hita (10–15%) 1–2 vikum eftir bólusetninguna, um helmingur þeirra sem fá hita fá líka útbrot (eins og þeim sé hellt yfir barnið, þ.e.a.s. byrja á höfði og breiðast niður eftir líkamanum og útlimum). Einkennin ganga yfirleitt yfir á fáeinum dögum. Staðbundin útbrot þar sem bóluefnið var gefið eru líka vel þekkt. Eldri börn og fullorðnir sem fá MMR bóluefni fá sjaldnar hita, en oftar liðverki um þremur vikum eftir bólusetningu, ef þau hafa ekki fengið bólusetningu gegn rauðum hundum áður (eða sjúkdóminn). Aukaskammtar af MMR bóluefni hafa ekki verið tengdir við aukna tíðni eða alvarleika aukaverkana.

Sóttvarnalæknir

 

Frétt af síðu embættis landlæknis. 

Hjúkrunarfræðingar sjá um að bóka á siðdegisvaktina. Hringja í 590-3900 og óska eftir símtali við hjúkrunarfræðing til að athuga með bókun. 

Page 1 of 2

 

Hvar erum við?

Heilsugæslan Salahverfi
Salavegi 2 - 201 Kópavogi
Sími
590 3900
Almennur opnunartími frá 08 - 17