Opnunartími frá 08 - 17


Vinsamlegast kynnið ykkur nýjustu fréttir vegna COVID-19 veirunnar – fréttirnar eru uppfærðar reglulega. Fara á vef Landlæknisembættisins
 

Í ljósi aukinna smita í mörgum löndum heims er nú öllum íbúum Íslands ráðlagt að ferðast ekki að nauðsynjalausu til skilgreindra áhættusvæða , sem í dag eru öll lönd og svæði heims nema Grænland. Reglulega er endurmetið hvort lönd falli undir áhættusvæði en sóttvarnalæknir telur ekki tímabært að breyta áhættusvæðum eins og er. Stór hluti annarra þjóða er enn óbólusettur og mikið um smit meðal óbólusettra en bólusettir einstaklingar smitast líka og geta smitað aðra, þótt bólusetning verji einstaklinginn gegn alvarlegum sjúkdómi.

Þeir sem þurfa að ferðast erlendis eru beðnir að sýna varúð og sinna persónulegum sóttvörnum á ferðalaginu og erlendis, þ.m.t. tíðum handþvotti, forðast mannþröng og nánd við ótengda aðila og nota andlitsgrímur. Allir eru hvattir til að fara í sýnatöku sem fyrst ef einkenna verður vart. Einkennalausir ferðamenn eru einnig hvattir til að fara í sýnatöku við heimkomu til Íslands, þó þeir séu bólusettir, sem hægt er að panta á heilsuvera.is  (undir COVID-19, bóka einkennasýnatöku: Velja Keflavík-airport sem staðsetningu og tilefni skv. tilmælum sóttvarnalæknis. Einnig hægt að velja staðsetningu á Suðurlandsbraut eða utan höfuðborgarsvæðis og gera sem fyrst eftir komuna).

Ferðamenn þurfa að huga að því að raskanir geti orðið á flugi og breytingar á reglum í öðrum löndum með litlum fyrirvara sem geta valdið erfiðleikum á að komast heim. Þá liggur skýrt fyrir að þeir sem eru jákvæðir á COVID-19 prófi eiga ekki að ferðast með smitandi sjúkdóm og þeir geta því ekki farið í áætlunarflug eða skip. Þessir einstaklingar verða einnig að fylgja fyrirmælum í viðkomandi landi.

Sjá nánar um skilgreind svæði með smitáhættu og reglur um för yfir landamæri .

[English ]

Til að efla varnir gegn delta afbrigði SARS-CoV-2 sem nú er ráðandi og útbreitt í samfélaginu hér á landi hefur sóttvarnalæknir mælt með örvunarbólusetningu þeirra sem fengu eins skammts bóluefni frá Janssen í fjöldabólusetningarátaki gegn COVID-19 í vor. Þeir sem fengu bólusetningu eftir COVID-19 sýkingu þurfa ekki frekari örvun að svo stöddu.

Mælt er með bólusetningu 8 vikum eftir Janssen bólusetningu en millibil má ekki fara undir 28 daga.

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hefur birt fyrirkomulag bólusetninganna á höfuðborgarsvæðinu. Byrjað verður á kennurum og öðru starfsfólki skóla en aðrir sem fengu Janssen fá örvunarbólusetningu síðar í ágúst.

Önnur umdæmi eru sum byrjuð á þessum bólusetningum, en flestir mega búast við að fá bólusetninguna á næstu 3 vikum.

Nota má hvort sem er bóluefni Moderna eða Pfizer fyrir örvunarskammtinn, eftir framboði, en Moderna er alla jafna eingöngu notað á höfuðborgarsvæðinu vegna fleiri skammta í hverju glasi.

 

Sjá nánar:

Örvunarbólusetningar vegna COVID-19 fyrir einstaklinga sem bólusettir voru með Janssen bóluefni án sögu um fyrri COVID sýkingu .

Að tillögu sóttvarnalæknis er öllum kennurum og starfsmönnum skóla sem fengu Jansen bólusetningu í vor boðinn örvunarskammtur með mRNA bóluefni (Pfizer/Moderna). Það þurfa minnst 28 dagar að hafa liðið frá Jansen bólusetningu til að fólk geti mætt í örvunarskammt. Bólusett verður dagana 3. til 13. ágúst á Suðurlandsbraut 34. Fólk er beðið um að koma sem hér segir: 

 
 Kennarar og starfsfólk skóla fætt:     Mæta: 
 Janúar og febrúar  3. ágúst
 Mars  4. ágúst
 Apríl  5. ágúst
 Maí  6. ágúst
 Júní  9. ágúst
 Júlí  10. ágúst
 Ágúst  11. ágúst
 September og október  12. ágúst
 Nóvember og desember  13. ágúst

 

Bólusett er frá klukkan 11 til 16. Fólk er beðið að koma eftir því hvenær í mánuðinum það er fætt. Þannig að þau sem eru fædd í fyrstu viku mánaðarins koma klukkan 11, þau sem eru fædd í annarri viku koma klukkan 12, þau sem eru fædd í þriðju viku koma klukkan 13 og þau sem fædd eru í síðustu viku mánaðar mæta klukkan 15. 

Boð verða ekki send út í þessar bólusetningar en allir eru beðnir um að hafa meðferðis eldra strikamerki um boð í bólusetningu. Þá skiptir ekki máli í hvaða efni eða dag boðað var. 

 

(uppfært 30. júlí 2021)

 

Sýnataka á Suðurlandsbraut 34 er opin 8:15 til 12:00 og 12:45 til 16.00 virka daga, og 9:00 til 15:00 um helgar.

Þessi opnunartími á við allar sýnatökur vegna COVID-19. Á staðnum er upplýsingamiðstöð en einnig má nálgast upplýsingar á netspjalli heilsuvera.is. Upplýsingar eru ekki veittar í síma.

Sýnatökur vegna einkenna eða samkvæmt fyrirmælum Sóttvarnalæknis

Sýnatöku vegna COVID 19 er hægt að panta á heilsuvera.is með rafrænum skilríkjum.

Þau sem eru ekki með rafræn skilríki þurfa að hafa símasamband við heilsugæslustöð sem pantar þá sýnatökuna fyrir viðkomandi. Einnig geta þau sem eru ekki með rafræn skilríki mætt beint á Suðurlandsbrautina og fengið aðstoð við að skrá sig.

Rannsóknin er gjaldfrjáls enda sóttvarnarráðstöfun. Viðkomandi fær SMS skilaboð um boðun og niðurstöðu.

Íbúar á Íslandi og aðrir sem hafa tengslanet á Íslandi eru beðnir um að fara í sýnatöku vegna COVID-19 sem fyrst eftir komuna til landsins.

Sóttvarnalæknir beinir þeim tilmælum til þeirra sem eru bólusettir eða eru með sögu um fyrri COVID-19 sýkingu og eru búsettir á Íslandi, eða hafa hér tengslanet, að fara í sýnatöku vegna COVID-19 við komuna hingað til lands þrátt fyrir neikvætt PCR- eða antigen próf, sem tekið var fyrir brottför. 

Meðan beðið er niðurstöðu skal sérstaklega huga að smitgát. Þannig eru ferðamenn einnig beðnir að halda sig sem mest til hlés fyrstu dagana eftir heimkomu, heimsækja ekki viðkvæma einstaklinga, eins og þá sem hafa undirliggjandi sjúkdóma, aldraða eða sjúklinga á spítölum, og fara í sýnatöku án tafar finni þeir fyrir einkennum sem bent geta til COVID-19.

Sjá einnig: Íbúar á Íslandi og aðrir sem hafa tengslanet á Íslandi eru beðnir um að fara í sýnatöku vegna COVID-19 sem fyrst eftir komuna til landsins.

Sýnataka vegna ferðalaga erlendis

Skráning í sýnatöku vegna ferðalaga erlendis er á travel.covid.is 

PCR próf kosta 7000 ISK / 50 EUR, en hraðpróf (COVID-19 Ag Rapid Test) kosta 4000 ISK / 30 EUR.

Einstaklingar bera sjálfir ábyrgð á að kynna sér kröfur erlendra ríkja sem ferðast er til um gildistíma sýnatöku og vottorðs.

Ferlið frá sýnatöku og til útgáfu og sendingu PCR vottorðs tekur almennt allt að 24 klst. ef sýnataka fer fram á höfuðborgarsvæðinu en allt að 48 klst. ef sýni er tekið á landsbyggðinni. Vegna kerfislegra vandkvæða kann lengri tími að líða og sending vottorða kann að misfarast. Því er afar mikilvægt að panta tíma í sýnatöku með eins miklum fyrirvara og mögulegt er.

Mögulegt er að koma á Suðurlandsbraut 34, bóka og fá sýnatöku á staðnum og fá vottorð eftir Covid-19 hraðpróf eftir 30-40 mín.

Nánari upplýsingar á travel.covid.is (staðfestið annað hvort farsímanúmer eða netfang til nálgast upplýsingar)

Á staðnum er upplýsingamiðstöð en einnig má nálgast upplýsingar á netspjalli heilsuvera.is. Upplýsingar eru ekki veittar í síma.

Útgáfudagur fréttar er 21. júli en síðast uppfært 23. júlí.

 

Hvar erum við?

Heilsugæslan Salahverfi
Salavegi 2 - 201 Kópavogi
Sími
590 3900
Almennur opnunartími frá 08 - 17