Opnunartími frá 08 - 17

Læknisþjónusta



Móttaka heimilislækna tilheyrir kjarnastarfssemi heilsugæslunnar. Á Heilsugæslunni í Salahverfi starfa nú 10 sérfræðingar í heimilislækningum. Hver læknir er með ákveðinn hóp skjólstæðinga á skrá hjá sér. Fjöldi skráðra skjólstæðinga á hvern lækni í fullri stöðu er yfirleitt á bilinu 1600-1800 manns.

Starfsfólk Heilsugæslunnar í Salahverfi leggur sig fram við að veita skjólstæðingum stöðvarinnar góða þjónustu. Í því felst meðal annars að gera allt sem mögulegt er til að hafa góðan aðgang að starfsfólkinu og að viðhafa samfelldni í þjónustunni. Það er metnaðarmál lækna sem og annarra starfsmanna Heilsugæslunnar í Salahverfi að búa svo um hnútana að heilsugæslan verði í hugum skjólstæðinganna að öllu jöfnu fyrsti viðkomustaður þeirra í heilbrigðiskerfinu.

Samskipti skjólstæðinga stöðvarinnar við sína lækna eru með margvíslegu móti:
Viðtal við lækni á stöðinni er algengasta form samskiptanna. Upphaf þeirra samskipta eru yfirleitt með þeim hætti að skjólstæðingur hefur símasamband við móttöku stöðvarinnar og pantar sér tíma. Í flestum tilvikum kemst fólk að hjá sínum lækni innan eins eða tveggja daga. Sé erindið þess eðlis að leysa þurfi samdægurs er möguleiki á að bóka í svokallaða samdægurstíma hjá nokkrum læknanna. Er þá gert ráð fyrir að hægt sé að leysa málið með 10 mínútna viðtali á stofunni. Komi erindið til með að taka lengri tíma en 10 mínútur eða séu erindin fleiri en eitt er best að panta tíma með meiri fyrirvara og fá þá 20 mínútna viðtal. Telji skjólstæðingur erindi sitt þurfa úrlausnar samdægurs en komist ekki að hjá sínum lækni þá er mögulegt að fá tíma hjá hjúkrunarfræðingi. Eins er alltaf hægt að  leita með erindið til læknis á síðdegismóttökunni sem er opin milli kl 16-17 alla virka daga. Hjúkrunarfræðingar bóka á síðdegismóttökuna. . Hámarksfjöldi koma á síðdegisvakt eru 10 einstaklingar.


Símatímar. Allir læknar Heilsugæslunnar hafa símatíma.  Til að ná símasambandi við lækni þarf að hafa samband við móttökuna að morgni dags (best að hringja kl. 8) og óska eftir símtali. Læknirinn hringir þá í viðkomandi á ákveðnum símatíma síðar um daginn. Símatímar eru ætlaðir til ýmiss konar ráðgjafa og upplýsinga t.d. um rannsóknaniðurstöður.


Lyfjaendurnýjanir lækna gegnum síma fara þannig fram að viðkomandi hefur símasamband við móttökuna og óskar eftir endurnýjun lyfseðlis/lyfseðla. Á þann hátt er þó einungis hægt að endurnýja lyf sem áður hafa verið ávísuð einstaklingnum á stöðinni. Fjölnota lyfseðla er yfirleitt einungis hægt að endurnýja með heimsókn á stöðina. Lyfjaendurnýjun fer fram milli kl 9-12.
Margvísleg samvinna lækna við annað starfsfólk stöðvarinnar á sér stað við úrlausn heilsuvanda skjólstæðinga stöðvarinnar. Samvinna lækna og hjúkrunarfræðinga er líklega það sem fólk verður helst vart við, t.d. í  meðgönguvernd, ungbarnavernd og við móttöku einstaklinga með bráð vandamál. Einnig á sér stað samvinna lækna við læknaritara, móttökuritara og starfsfólk rannsóknastofunnar.

 

Hvar erum við?

Heilsugæslan Salahverfi
Salavegi 2 - 201 Kópavogi
Sími
590 3900
Almennur opnunartími frá 08 - 17